12.09.2019
Bifhjólasamtök Lýðveldisins Sniglar heimsóttu nemendur í 7.-10. bekk í Njarðvíkurskóla í gær og voru með forvarnarfræðslu er varðar léttbifhjól í 1 flokki (vespur) um notkun þeirra, öryggi, umferðareglur, hættur og fleira. Fræðslan var í samstarfi við Sjóvá og Samgöngustofu. Guðrún Ámundadóttir og Vilberg Kjartansson mættu fyrir hönd samtakana.
Í fræðslunni var lögð mikil áhersla á að nota viðurkennda bifhjólahjálma og þar til gerðan búnað, fara eftir umferðareglunum, hvernig haga sér á göngustígum í kringum gangandi vegfarendur og reiðhjólafólk og gæta fylgsta öryggis. Eins var lögð áhersla á vera sjálfum sér og öðrum til fyrirmyndar í umferðinni.
Lesa meira
05.09.2019
Föstudaginn 30. ágúst var opnunarhátíð í húsnæði sérdeildarinnar Ösp við Njarðvíkurskóla í tilefni af afhendingu viðbyggingar við sérdeildina. Kjartan Már bæjarstjóri, fulltrúar frá bæjarstjórn, fræðsluskrifstofu og umhverfissviði voru viðstaddir. Auk þess sem velgjörðarmenn, byggingaverktakar og starfsfólk skólans voru á staðnum.
Í maí var hafist handa við nýja viðbyggingu við sérdeildina Ösp við Njarðvíkurskóla. Viðbyggingin er um 282 m² sem mun breyta miklu í starfsemi deildarinnar. Einnig voru gerðar endurbætur að innan á núverandi byggingu sem er 336 m² að stærð – húsnæðið er því í heild 618 m².
Jóhann Friðriksson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, hélt stutta tölu og framhaldi talaði Ásgerður Þorgeirsdóttir skólastjóri Njarðvíkurskóla til gesta.
Í ræðu Ásgerðar sagði hún að gaman væri að fá að taka við þessari glæsilegu viðbyggingu sem ætti eftir að nýtast vel í því frábæra starfi sem unnið er í sérdeildinni.
Sérdeildin Ösp var stofnuð árið 2002 þegar skólaúrræði vantaði fyrir nemendur sem gátu ekki nýtt sér almenna bekkjarkennslu. Deildin er hugsuð fyrir nemendur í 1.-10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar sem þurfa á mjög sértæku námsúrræði að halda. Í Ösp eru skráðir í skólabyrjun 23 nemendur í 1.-10. bekk. Kristín Blöndal er deildarstjóri í Ösp og auk hennar starfa þrír sérkennari, þrír þroskaþjálfar , tveir leiðbeinendur, tveir félagsliðar og 12 stuðningsfulltrúar. Íþróttakennarar og list- og verkgreinakennarar Njarðvíkurskóla koma einnig að kennslu nemenda í Ösp.
Frístundaheimili er starfrækt eftir skóla frá 13:30 -16:00 þar sem Ólöf Rafnsdóttir er umsjónarmaður.
Nýkláruð viðbygging er fjórða stækkunin við sérdeildina, síðast var stækkað við hana árið 2012. Mikil þörf var orðin á að stækka húsnæðin og deildina vegna fjölgunar nemenda í bæjarfélaginu og koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn sem var mjög bágborin í eldra húsnæðinu.
Sparri byggingaverktakar sáu um verkið og sagði Ásgerður í sinni ræðu að Njarðvíkurskóli hefði ekki getað verið heppnari með verktaka. Framkvæmdir við húsið hófust í maí og reis það upp á miklum hraða og var mikill metnaður hjá öllum sem komu að byggingaframkvæmdum að þetta gengi hratt og fljótt fyrir sig svo starfsemin gæti byrjað sem næst skólasetningu. Ásgerður sagðist seint geta fullþakkað Sparramönnum og öðrum undirverktökum sem komu að verkinu hve hratt og vel þetta allt var gert og frágangur til fyrirmyndar.
Ásgerður sagði húsnæðið glæsilegt sem Reykjanesbær gæti verið stoltur af að hafa í bæjarfélaginu og mun styrkja starfið mikið með það að markmiði að geta komið enn betur til móts við nemendur með sérþarfir. Í Ösp er unnið mjög gott starf og er horft til starfsemi sérdeildarinnar frá öðrum sveitarfélögum.
Að lokum nefni Ásgerður hversu mikils virði fyrir sérdeildina sá stuðningur og velvild sem deildin hefur notið innan grenndarsamfélagsins, þar sem meðal annars hafa báðir Lionsklúbbarnir í Njarðvík, Kvenfélagið Njarðvík sem og Ásmundur Friðriksson hafa styrkt deildina mikið.
Lesa meira
05.09.2019
Einar Mikael töframaður og Ásmundur Valgeirsson söngvari skemmtu nemendum í 1.-6. bekk í íþróttahúsinu í morgun í tengslum við upphaf Ljósanætur.
Einar Mikael sýndi fjölmarga töfra og sjónhverfingar en hann hefur notið ómældra vinsælda meðal yngstu kynslóðarinnar.
Í framhaldi steig Ásmundur Valgeirsson á svið og söng ljósanæturlagið „Velkomin á Ljósanótt“ þar sem nemendur sungu hástöfum. Það er löngu orðin hefð í Njarðvíkurskóla að Ási komi og syngi fyrir nemendur í upphafi Ljósanætur.
Lesa meira
04.09.2019
Hugarfrelsi býður foreldrum barna og unglinga á Suðurnesjum upp á ókeypis foreldranámskeið.
Hér er um stutt og hnitmiðað námskeið að ræða. Hraði og áreiti einkennir samfélag okkar í dag og eiga börn og unglingar oft á tíðum erfitt með að vera besta útgáfan af sér. Gríðarlegur tími fer í notkun á snjalltækjum sem ýtir undir samanburð og neikvæða sjálfsmynd. Mikilvægt er að börn og unglingar kunni að nýta sér einfaldar aðferðir til að staldra við, slaka á og njóta augnabliksins.
Á námskeiðinu verður farið yfir:
– Hvernig hægt er að leiðbeina börnum í að velja jákvæðni umfram neikvæðni
– Hvernig foreldrar geta hjálpað börnum sínum að efla sjálfsmynd sína og styrkleika
– Einfaldar öndunar-, slökunar- og hugleiðsluæfingar sem auka vellíðan, efla einbeitingu, hugarró og draga úr kvíða
– Einfaldar leiðir til að hjálpa barninu þínu til að sofna
Að námskeiðinu loknu ættu þátttakendur að hafa í höndum verkfæri til að nýta í uppeldinu svo börn þeirra nái að blómstra og finni aukna hugarró.
Ef þú vilt efla þig sem foreldri og læra einfaldar aðferðir sem þú getur nýtt í uppeldinu þá er þetta námskeið tilvalið fyrir þig!
11. september 2019 (miðvikudagur)
Kl. 20:00-21:30
Íþróttaakademían í Reykjanesbæ, Sunnubraut 35
Skráning á www.hugarfrelsi.is, takmarkaður sætafjöldi.
Lesa meira
04.09.2019
Aðalfundur foreldrafélags Njarðvíkurskóla
Foreldrafélag Njarðvíkurskóla boðar til aðalfundar.
Fundurinn verður haldinn á sal Njarðvíkurskóla miðvikudaginn 18. september kl. 20.00.
Dagskrá:
- Kosning fundaritara
- Formaður flytur skýrslu stjórnar
- Uppgjör ársins 2018 - 2019
- Kosning stjórnar FFN
Tillögur af uppstillingu:
- Kristín Hjartardóttir – Formaður
- Geirný Geirsdóttir – Varaformaður
- Vala Rún Vilhjálmsdóttir – Ritari
- Henný Úlfarsdóttir – Gjaldkeri
- Verkefni vetrarins 2019 - 2020
- Önnur mál
Hlökkum til að sjá ykkur
Stjórn foreldrafélags Njarðvíkurskóla
Lesa meira
03.09.2019
Rafbókasafnið - Líka fyrir námsmenn
Allir nemendur geta nálgast fjölda titla hljóð- og rafbóka á auðveldan hátt.
Það eina sem nemendur þurfa til að nálgast efni er gilt bókasafnsskírteini hjá Bókasafni Reykjanesbæjar. Minnum á að bókasafnskírteini er gjaldfrjálst fyrir alla yngri en 18 ára.
Fjölmargir efnisflokkar standa lánþegum til boða, líkt og í hefðbundnu bókasafni. Þar er að finna spennusögur, ævisögur, efni fyrir börn og unglinga, þar a meðal á ensku, pólsku og svo margt fleira þannig að allir ættu að finna þar eitthvað við sitt hæfi.
Hægt er að nálgast efnið í flestum tækjum svo sem í vafra í tölvum, spjaldtölvum og snjallsímum.
Þjónustan er veitt í gegnum OverDrive rafbókaveituna og Libby,en öppin má finna í App Store og Play store og þjónustan er gjaldfrjáls fyrir notendur sem eiga gilt bókasafnsskírteini í Bókasafni Reykjanesbæjar. Slóðin að Rafbókasafninu er rafbokasafnid.is .
Einnig má finna efni Rafbókasafnsins á leitir.is
Leiðbeiningar má nálgast á vefslóðinni: https://sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn/safnakostur/rafbokasafnid og senda má fyrirspurnir á netfangið rafbokasafnid@reykjanesbaer.is
Starfsfólk Bókasafns Reykjanesbæjar aðstoðar einnig við uppsetningu Rafbókasafnsins sé þess þörf.
Lesa meira
29.08.2019
Ljósanótt verður haldin í 20. sinn dagana 4. til 8. september. Ljósanótt í Reykjanesbæ var fyrst haldin árið 2000 og var þá einn dagur en nú nær hátíðin yfir tæpa viku. Virðing fyrir umhverfinu eykst sem betur fer með hverju árinu og nú er svo komið að stefnt er að því að halda „Plastlausa Ljósanótt“ árið 2019.
Hátíðin í ár er sérstaklega kynnt sem „Plastlaus Ljósanótt“ og er það liður í umhverfisátaki Reykjanesbæjar. Settar verða upp flokkunar ruslatunnur á hátíðarsvæðinu og íbúar keppast nú við að sauma margnota poka í pokastöð Bókasafnsins „Saumað fyrir umhverfið“ til að nota í verslunum í bæjarfélaginu. Vonast er til að sem flestir taki tillit til þessa átaks.
Njarðvíkurskóli tekur þátt í átakinu sem miðar að því að vekja nemendur til umhugsunar um ofnotkun plasts og skaðsemi plasts fyrir umhverfið. Nemendur í Njarðvíkurskóla hafa saumað fjölda margnota taupoka að undanförnu, en margnota taupokar geta auðveldlega komið í stað plastpoka.
Lesa meira
28.08.2019
Setning Ljósanætur 2019
Setning Ljósanætur fer fram miðvikudaginn 4. september kl. 16:30 -17:30 í Skrúðgarðinum við Suðurgötu.
Njarðvíkurskóli á tvo fulltrúa úr 6. bekk í Ljósanætur - kórnum.
Við hvetjum foreldra að mæta með börnin sín á setninguna.
Setning Ljósanætur
Börnin eru í aðalhlutverki við setningarathöfn Ljósanætur sem fram fer í skemmtilegri athöfn í skrúðgarðinum við Suðurgötu. Foreldrar eru hvattir til að fylgja börnum sínum á þennan flotta viðburð. Í tilefni af 20 ára afmæli Ljósanætur verður haldið pylsupartý þar sem öllum er boðið upp á pylsur beint af grillinu.
Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar spilar frá kl. 16:15 undir stjórn Hörpu Jóhannsdóttur.
Dagskrá:
- Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi býður gesti velkomna.
- Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar ávarpar gesti og að því loknu draga þau Filoretta Osmani og Maciek Baginski Ljósanæturfánann að húni og þar með er hátíðin sett.
- Samkór nemenda úr grunnskólum Reykjanesbæjar syngur lögin, Ljósanótt og Meistari Jakob við undirleik Skúla Freys Brynjólfssonar.
- Það er svo söngkonan geðþekka Salka Sól sem tekur við og skemmtir gestum.
Lesa meira
21.08.2019
Frá og með þessu skólaári er Njarðvíkurskóli hnetulaus skóli og má því enginn koma með nesti sem inniheldur hnetur. Dæmi um slíkt er: hnetujógúrt, abt mjólk með hnetumúsli, brauð með hnetusmjöri, hnetur í poka, alls kyns orkustykki, sumar brauðtegundir, morgunkorn og fleira.
Brýnt er að tekið sé tillit til þeirra sem hafa bráðaofnæmi fyrir hnetum því það getur valdið mjög slæmum og hættulegum ofnæmisviðbrögðum. Við biðjum ykkur því að gæta þess að börnin komi með hnetufrítt nesti í skólann. Það sama gildir um t.d. bakkelsi á árshátíðum eða á bekkjarskemmtunum.
Lesa meira
07.08.2019
Skólasetning fyrir skólaárið 2019-2020 verður á sal skólans fimmtudaginn 22. ágúst á eftirfarandi tímasetningum:
- nemendur í 2.-4. bekk kl. 9:00
- nemendur í 5.-7. bekk kl. 10:00
- nemendur í 8.-10. bekk kl. 11:00
- nemendur í 1. bekk kl. 12:30
Í framhaldi að skólasetningu á sal fara nemendur og foreldrar/forráðamenn í heimastofur þar sem umsjónarkennarar verða með stutta skólakynningu.
Mikilvægt er að foreldrar/forráðamenn fylgi sínum börnum á skólasetninguna.
Lesa meira