17.03.2025
Þriðjudaginn 25. mars næstkomandi verður haldið Skólaþing Njarðvíkurskóla.
Við bjóðum öllum sem koma að skólasamfélagi Njarðvíkurskóla og vilja hafa áhrif á skólastarfið að taka þátt. Forráðamenn, nemendur og starfsfólk eru sérstaklega boðin velkomin. Á þinginu gefst tækifæri til þess að koma með hugmyndir að því hvernig hægt er að efla skólastarfið og stuðla að áframhaldandi þróun skólans.
Þingið verður haldið á sal Njarðvíkurskóla kl. 19:30-20:30.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest
Lesa meira
14.03.2025
Olivia Sóley Þórólfsdóttir, nemandi við Njarðvíkurskóla vakti verðskuldaða athygli fyrir framúrskarandi árangur í teiknisamkeppni Lions á Íslandi. Verk hennar endurspeglaði mikla sköpunargáfu og hæfni í myndlist sem heillaði dómnefndina.
Fulltrúar frá Lions heimsóttu skólann og afhentu Oliviu Sóley verðlaunin. Þessi viðurkenning er ekki aðeins sigur fyrir Oliviu Sóley heldur einnig innblástur fyrir aðra nemendur skólans. Hún sannar að með ástríðu, metnaði og þrotlausri vinnu er hægt að ná langt í listum.
Við óskum Oliviu Sóley innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og hlökkum til að fylgjast með henni þróa listræna hæfileika sína enn frekar í framtíðinni.
Lesa meira
13.03.2025
Glæsileg lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Reykjanesbæ fór fram í Hljómahöll þann 12. mars síðastliðinn. Njarðvíkurskóli átti þar fulltrúa sem stóðu sig með mikilli prýði og gerðu skólanum sínum sannarlega sóma.
Karen Gígja Guðnadóttir og Viktoría Sól Sigurðardóttir kepptu fyrir hönd skólans en Elísa Guðrún Guðnadóttir var varamaður þeirra.
Rósa Kristín Jónsdóttir nemandi í 8. bekk Njarðvíkurskóla og sigurvegari keppninnar á síðasta ári tók einnig þátt í dagskránni með því að lesa texta um skáld hátíðarinnar.
Stóra upplestrarkeppnin er árlegur viðburður sem hefur það að markmiði að efla áhuga nemenda á móðurmálinu og vekja athygli á mikilvægi vandaðs upplestrar og framburðar. Keppnin er ætluð nemendum í 7. bekk grunnskóla og hefur um árabil verið einn af hápunktum skólaársins.
Fulltrúar Njarðvíkurskóla stóðu sig vel og sýndu góða færni með upplestri sínum þar sem keppendur lásu bæði bundið mál og óbundið.
Lesa meira
05.03.2025
Mikil gleði ríkti í skólanum á öskudaginn þegar nemendur og starfsfólk fögnuðu þessum skemmtilega degi saman. Húsið iðaði af lífi og fjöri þegar börnin mættu í sínum glæsilegu búningum, tilbúin að taka þátt í fjölbreyttum og spennandi viðburðum dagsins.
Skipulagðar voru mismunandi stöðvar um allan skóla þar sem nemendur gátu spreytt sig á ýmsum skemmtilegum verkefnum. Í íþróttasalnum voru líka fjölbreyttar hreyfistöðvar. Nemendur fóru á milli stöðva með bekkjarfélögum sínum og nutu þess að prófa allt sem í boði var.
Einnig var vinsælt að heimsækja draugahúsið sem nemendaráð setti upp og sáu um að skapa dularfulla stemningu fyrir alla nemendur.
Dagurinn endaði með glæsilegri pizzaveislu þar sem allir nemendur og starfsfólk komu saman í matsalnum.
Við þökkum öllum sem tóku þátt í að gera þennan dag að eftirminnilegri upplifun fyrir nemendur skólans líkt og má sjá á meðfylgjandi myndum.
Lesa meira
03.03.2025
Miðvikudaginn 5. mars er Öskudagur og er það skertur nemendadagur. Skóla lýkur kl. 11:15 í Njarðvíkurskóla og geta nemendur borðað hádegismat áður en þeir fara heim. Í Ösp er kennsla til 13:20. Frístundaheimili í skóla og Ösp er opið eftir að skóla lýkur til kl. 16:15.
Fimmtudaginn 6. mars er starfsdagur og föstudaginn 7. mars er vetrarleyfi í Njarðvíkurskóla. Allir nemendur eiga frí þessa tvo daga og frístundaheimili yngri nemenda og frístund í Ösp er lokað báða dagana.
Lesa meira
28.02.2025
Það var sannkölluð hátíðarstemning sem ríkti í Njarðvíkurskóla í morgun, 28. febrúar, þegar skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar fór fram. Nemendur sýndu þar afrakstur æfinga vetrarins í upplestri og það var augljóst að allir þátttakendur höfðu lagt mikla vinnu í undirbúninginn. Formlegur undirbúningur hófst á degi íslenskrar tungu í nóvember á síðasta ári og hafa nemendur æft sig undir stjórn íslenskukennara 7. bekkjar, Karen Ösp og Margrét Rósa.
Í dómnefnd sátu þau Ásgerður Þorgeirsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Njarðvíkurskóla, Haraldur Axel Einarsson, grunnskólafulltrúi á menntasviði Reykjanesbæjar, og Rafn Markús Vilbergsson, skólastjóri Njarðvíkurskóla. Áttu vandasamt verkefni fyrir höndum við að velja sigurvegara úr hópi hæfileikaríkra þátttakenda.
Karen Gígja Guðnadóttir og Viktoría Sól Sigurðardóttir báru sigur úr býtum með glæsilegum upplestri sínum. Þær munu vera fulltrúar skólans í lokahátíðinni sem fram fer í Hljómahöll þann 12. mars næstkomandi. Elísa Guðrún Guðnadóttir var valin varamaður og stóð sig einnig frábærlega.
Lokahátíðin í Hljómahöll verður haldin 12. mars þar sem koma saman nemendur úr öllum grunnskólum Reykjanesbæjar. Þar munu nemendur fá tækifæri til að sýna hæfileika sína í upplestri.
Við óskum sigurvegurunum innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með þeim á lokahátíðinni.
Lesa meira
26.02.2025
Í dag fengum við góða heimsókn til nemenda í 3. bekk frá Gunnari hjá Eldvarnareftirliti Brunavarna Suðurnesja. Fyrir jólin komu fulltrúar frá Eldvarnareftirlitinu með fræðslu til nemenda og tóku þau þátt í getraun í kjölfarið. Einn nemandi í árgangnum var dreginn út með allt rétt og fékk í verðlaun viðurkenningarskjal auk inneignar hjá Spilavinum.
Við óskum Hafþóri Söring til hamingju með vinninginn sinn.
Lesa meira
21.02.2025
Dagana 19.-21. febrúar hélt Njarðvíkurskóli þemadaga með yfirskriftinni ,,Árið okkar". Þar fjallaði hver árgangur um sitt fæðingarár og unnu fjölbreytt verkefni tengt sínu fæðingarári.
Nemendur tóku virkan þátt í dagskránni sem innihélt skemmtileg og fræðandi verkefni. Þemadagarnir tókust afar vel og skapaðist góð stemning í skólanum þar sem allir lögðu sitt af mörkum. Þemað í ár var það sama og verður á árshátíð Njarðvíkurskóla þann 4. apríl næstkomandi, þar sem atriði nemenda munu fjalla um fæðingarár þeirra og eftir árshátíð munu forráðamenn geta skoðað afrakstur þemadaga inni í skóla.
Við þökkum öllum nemendum og starfsfólki fyrir frábæra þátttöku og hlökkum til að endurtaka leikinn á næsta ári!
Myndir af nemendum, sem Kacper Agnar og Júlíus Garðar í 10. bekk tóku, fylgja með fréttinni.
Lesa meira
07.02.2025
Nemendur í 1. bekk héldu 100 daga hátíð þar sem þeir eru búnir að vera í skólanum 100 daga á þessu skólaári. Af því tilefni var skóladagurinn brotinn upp. Nemendur bjuggu til kórónur í tilefni dagsins, unnu 100 daga verkefni, fóru í skrúðgöngu um skólann og fögnuðu nemendur í 2.-5. bekk þeim með lófaklappi. Næst var farið í hreyfileiki á sal skólans, nemendur marseruðu, dönsuðu og fóru í limbó með aðstoð nokkurra stúlka í 10. bekk. Í tilefni dagsins fengu nemendur ís og góðgæti.
Líf og fjör á hundraðasta skóladeginum okkar eins og má sjá á meðfylgjandi myndum.
Lesa meira
05.02.2025
Í ljósi þess að gefin hefur verið út rauð viðvörun fyrir okkar landssvæði frá kl. 8:00 í fyrramálið til kl. 13:00 þá fellur allt skólastarf í grunnskólum Reykjanesbæjar niður fimmtudaginn 6. febrúar.
Frístundaheimili í Njarðvíkurskóla og Ösp opna á hefðbundnum tíma (kl. 13:20) og starfsemin því óskert. Foreldrar eru beðnir um að láta forstöðumenn vita ef ekki á að nýta frístund.
Foreldrar eru beðnir um að fylgjast vel með tilkynningum frá frístundaheimilinu ef eitthvað breytist.
Lesa meira