Fréttir

Páskafrí 2025

Páskafrí í skólanum hefst mánudaginn 14. apríl. Kennsla hefst aftur samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 22. apríl. Við óskum öllum nemendum og forráðamönnum gleðilegra páska og vonum að þið njótið vel yfir hátíðarnar. Við hlökkum til að taka á móti öllum endurnærðum og tilbúnum í lokasprett skólaársins.
Lesa meira

Skóladagatal fyrir skólaárið 2025-2026

Skóladagatal Njarðvíkurskóla og Ösp fyrir skólaárið 2025-2026 hefur verið birt og hægt er að nálgast það hér. Dagatalið hefur verið samþykkt af starfsfólki skólans, skólaráði og hjá menntaráði Reykjanesbæjar.
Lesa meira

Árshátíð Njarðvíkurskóla 2025

Glæsileg árshátíð Njarðvíkurskóla var haldin þann 4. apríl. Þema árshátíðarinnar í ár var „Árið okkar", sem var sama þema og hafði verið á þemadögum fyrr í vetur. Nemendur fluttu atriði sem tengdust þeirra fæðingarári og voru atriðin fjölbreytt í ár og höfðu nemendur og kennarar þeirra lagt á sig mikla vinnu við að undirbúa sín atriði. Líkt og áður voru það nemendur skólans sem voru í öllum helstu lykilhlutverkum þannig að nemendur úr 9. og 10. bekk voru kynnar, hljóð- og ljósamenn sem og sviðsmenn og ber að hrósa þeim nemendum sem tóku það hlutverk að sér fyrir frábæra vinnu og samvinnu í ár. Árshátíðin var haldin í íþróttahúsi skólans sem var búið að umbreyta í frábæran leik- og tónlistarsal. Að lokinni árshátíð var boðið upp á skúffuköku og drykki í boði foreldrafélags Njarðvíkurskóla í skólanum þar sem forráðamenn gátu skoðað afrakstur þemadaga frá því fyrr í vetur. Foreldrar og gestir voru sammála um að árshátíðin hefði verið einstaklega vel heppnuð og endurspeglað vel þann góða anda sem ríkir í Njarðvíkurskóla. Hér má sjá nokkrar myndir frá árshátíðinni og fleiri myndir munu koma síðar
Lesa meira

Árshátíð Njarðvíkurskóla 2025

Árshátíð Njarðvíkurskóla verður haldin föstudaginn 4. apríl 2025. Nemendur mæta kl. 10:30 í heimastofur og fara þaðan saman með umsjónarkennara sínum yfir í íþróttahúsið. Sumir nemendur gegna sérstökum hlutverkum og mæta þeir samkvæmt fyrirmælum frá sínum kennara. Nemendur í Ösp mæta í Ösp kl. 8:15. Frístundaheimili skólans og í Ösp eru lokuð þennan dag. Hátíðardagskrá hefst kl. 11:00 í íþróttahúsinu við Njarðvíkurskóla. Þar verða frátekin sæti fyrir hvern árgang á gólfinu en gestir fá sæti í stúkunni og mögulega á öftustu röðum gólfsins. Íþróttahúsið opnar fyrir gesti kl. 10:30. Þema árshátíðarinnar er ÁRIÐ OKKAR. Sama þema og var á þemadögum skólans í febrúar. Í kjölfar hátíðardagskrár afrakstur nemenda frá þemadögunum til sýnis. Eins og hefð er fyrir er árshátíðargestum boðið upp á kaffiveitingar í skólanum eftir dagskrána, í boði verður skúffukaka og drykkir. Í ár er skúffukakan í boði foreldrafélags Njarðvíkurskóla. Athugið að nemendur koma ekki með síma á árshátíðina þar sem notkun síma og myndataka nemenda er ekki leyfð. Við hvetjum forráðamenn og aðra fjölskyldumeðlimi til að mæta og taka þátt í þessum skemmtilega degi. Gert er ráð fyrir að dagskrá í íþróttahúsinu taki um 60 mínútur og eftir það eru nemendur í umsjá forráðamanna. Við minnum alla nemendur á að mæta stundvíslega og snyrtilega klædd.
Lesa meira

Innritun nýnema í grunnskóla

Innritun tilvonandi 1. bekkinga í grunnskóla fyrir skólaárið 2025-26 Innritun er hafin fyrir börn sem eiga að fara í 1. bekk grunnskóla í Reykjanesbæ haustið 2025. Gert er ráð fyrir því að foreldrar séu búnir að skrá börn sín fyrir 30. apríl. Í Reykjanesbæ sækja nemendur grunnskóla samkvæmt skólahverfum. Foreldrar sækja um skólavist fyrir börn sín á íbúavefnum Mitt Reykjanes. Hér má skoða frekari upplýsingar um grunnskóla Reykjanesbæjar.
Lesa meira

Skólaþing Njarðvíkurskóla

Þriðjudaginn 25. mars næstkomandi verður haldið Skólaþing Njarðvíkurskóla. Við bjóðum öllum sem koma að skólasamfélagi Njarðvíkurskóla og vilja hafa áhrif á skólastarfið að taka þátt. Forráðamenn, nemendur og starfsfólk eru sérstaklega boðin velkomin. Á þinginu gefst tækifæri til þess að koma með hugmyndir að því hvernig hægt er að efla skólastarfið og stuðla að áframhaldandi þróun skólans. Þingið verður haldið á sal Njarðvíkurskóla kl. 19:30-20:30. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest
Lesa meira

Olivia Sóley í 7. bekk verðlaunuð í myndlistarkeppni

Olivia Sóley Þórólfsdóttir, nemandi við Njarðvíkurskóla vakti verðskuldaða athygli fyrir framúrskarandi árangur í teiknisamkeppni Lions á Íslandi. Verk hennar endurspeglaði mikla sköpunargáfu og hæfni í myndlist sem heillaði dómnefndina. Fulltrúar frá Lions heimsóttu skólann og afhentu Oliviu Sóley verðlaunin. Þessi viðurkenning er ekki aðeins sigur fyrir Oliviu Sóley heldur einnig innblástur fyrir aðra nemendur skólans. Hún sannar að með ástríðu, metnaði og þrotlausri vinnu er hægt að ná langt í listum. Við óskum Oliviu Sóley innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og hlökkum til að fylgjast með henni þróa listræna hæfileika sína enn frekar í framtíðinni.
Lesa meira

Lokahátíð Stóru upplestarkeppninnar

Glæsileg lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Reykjanesbæ fór fram í Hljómahöll þann 12. mars síðastliðinn. Njarðvíkurskóli átti þar fulltrúa sem stóðu sig með mikilli prýði og gerðu skólanum sínum sannarlega sóma. Karen Gígja Guðnadóttir og Viktoría Sól Sigurðardóttir kepptu fyrir hönd skólans en Elísa Guðrún Guðnadóttir var varamaður þeirra. Rósa Kristín Jónsdóttir nemandi í 8. bekk Njarðvíkurskóla og sigurvegari keppninnar á síðasta ári tók einnig þátt í dagskránni með því að lesa texta um skáld hátíðarinnar. Stóra upplestrarkeppnin er árlegur viðburður sem hefur það að markmiði að efla áhuga nemenda á móðurmálinu og vekja athygli á mikilvægi vandaðs upplestrar og framburðar. Keppnin er ætluð nemendum í 7. bekk grunnskóla og hefur um árabil verið einn af hápunktum skólaársins. Fulltrúar Njarðvíkurskóla stóðu sig vel og sýndu góða færni með upplestri sínum þar sem keppendur lásu bæði bundið mál og óbundið.
Lesa meira

Glæsilegur öskudagur í Njarðvíkurskóla

Mikil gleði ríkti í skólanum á öskudaginn þegar nemendur og starfsfólk fögnuðu þessum skemmtilega degi saman. Húsið iðaði af lífi og fjöri þegar börnin mættu í sínum glæsilegu búningum, tilbúin að taka þátt í fjölbreyttum og spennandi viðburðum dagsins. Skipulagðar voru mismunandi stöðvar um allan skóla þar sem nemendur gátu spreytt sig á ýmsum skemmtilegum verkefnum. Í íþróttasalnum voru líka fjölbreyttar hreyfistöðvar. Nemendur fóru á milli stöðva með bekkjarfélögum sínum og nutu þess að prófa allt sem í boði var. Einnig var vinsælt að heimsækja draugahúsið sem nemendaráð setti upp og sáu um að skapa dularfulla stemningu fyrir alla nemendur. Dagurinn endaði með glæsilegri pizzaveislu þar sem allir nemendur og starfsfólk komu saman í matsalnum. Við þökkum öllum sem tóku þátt í að gera þennan dag að eftirminnilegri upplifun fyrir nemendur skólans líkt og má sjá á meðfylgjandi myndum.
Lesa meira

Öskudagur, starfsdagur og vetrarleyfi

Miðvikudaginn 5. mars er Öskudagur og er það skertur nemendadagur. Skóla lýkur kl. 11:15 í Njarðvíkurskóla og geta nemendur borðað hádegismat áður en þeir fara heim. Í Ösp er kennsla til 13:20. Frístundaheimili í skóla og Ösp er opið eftir að skóla lýkur til kl. 16:15. Fimmtudaginn 6. mars er starfsdagur og föstudaginn 7. mars er vetrarleyfi í Njarðvíkurskóla. Allir nemendur eiga frí þessa tvo daga og frístundaheimili yngri nemenda og frístund í Ösp er lokað báða dagana.
Lesa meira