Samskiptaáætlun

Verklag um samskipti heimilis og skóla - Njarðvíkurskóli

Góð og jákvæð samskipti milli heimila og skóla eru mikilvæg í farsælu skólastarfi. Njarðvíkurskóli leitast við að skapa jákvætt skólaumhverfi þar sem öllum líður vel. Allt starfsfólk tekur þátt í að byggja upp sterkt námssamfélag með jákvæðum samskiptum með góðu samstarfi við alla þá sem samfélagið móta. Njarðvíkurskóli vinnur eftir agastefnunni, Stuðningur við jákvæða hegðun þar sem gildi samskipta eru virðing, ábyrgð og vinsemd.

Í 2. grein laga um grunnskóla segir að grunnskóli skuli stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi nemenda. Í 18. grein segir jafnframt að forráðamönnum er skylt að veita grunnskóla upplýsinga um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnsins.

 

Í aðalnámskrá grunnskóla segir um samstarf heimila og skóla:

Upplýsingagjöf milli heimila og skóla og samráð kennara og foreldra um nám og kennslu er mikilvæg forsenda fyrir árangursríku skólastarfi. Skólar bera ábyrgð á að slíkt samstarf komist á og því sé viðhaldið alla skólagöngu barnsins (bls. 45).


Gagnkvæm og virk upplýsingagjöf stuðlar að trausti milli forráðamanna og starfsfólks skóla og hjálpar þeim að deila ábyrgð og taka ákvarðanir sem lúta að velferð nemenda. Með auknum kynnum forráðamanna af daglegu starfi í skólanum og skipulegri samvinnu um skólastarfið aukast líkur á virkri þátttöku foreldra í tengslum við ákvarðanir og ábyrgð. Aukin hlutdeild foreldra stuðlar að bættum námsárangri barna og bættri líðan þeirra. Brýnt er að skólar gefi reglulega skýrar upplýsingar um skólastarfið og áætlanir sem liggja fyrir um starfsemi skólans. Þetta má gera með ýmsum hætti, t.d. á samtalsdögum, á sameiginlegum kynningarfundum með foreldrahópum, í skólanámskrá, gegnum rafræn samskiptaforrit og á vefsíðu skólans. Forráðamenn skulu upplýsa skólann sem best um hagi barnsins og almennan þroska og greina frá þeim þáttum sem geta haft áhrif á líðan þess og frammistöðu í skólanum (bls. 72).

Forráðmenn geta óskað eftir viðtali við kennara í samráði við hann. Þá geta forráðamenn einnig haft samband með tölvupósti eða símleiðis í gegnum skrifstofustjóra Njarðvíkurskóla. Tölvupóstar sem sendir eru eftir skólatíma er að öllu jöfnu svarað innan tveggja skóladaga. Forráðamenn geta ekki treyst því að tölvupóstur sem þeir senda kennara verði lesinn samdægurs og því er betra ef erindið er mikilvægt að hringja á skrifstofu skólans. Mikilvægt er að hafa í huga að tölvupóstar eru notaðir til að senda upplýsingar eða spyrjast fyrir um hagnýt mál en viðkvæm og persónuleg mál er betra að ræða í síma eða á fundum. Hafi forráðamenn áhyggjur af líðan eða námslegri stöðu er mikilvægt að þeir leiti til umsjónarkennara til samstarfs og leiða til að vinna á því.

Forráðamenn geta einnig haft samband við stjórnendur skólans með tölvupósti eða símleiðis í gegnum skrifstofustjóra Njarðvíkurskóla. Mikilvægt er að forráðamenn hafi samband við umsjónarkennara varðandi mál er varða nemanda áður en leitað er til stjórnenda.

Hafi forráðamenn áhyggjur af því að nemandi sé lagður í einelti skal hafa samband við umsjónarkennara sem kemur málinu í réttan farveg eftir ferlum skólans varðandi eineltismál, sjá https://www.njardvikurskoli.is/is/stodthjonusta/einelti.

Forráðamenn eiga ekki undir neinum kringumstæðum að senda starfsmönnum skólans skilaboð á samfélagsmiðlum um málefni sem tengjast skólanum. Starfsmenn eiga ekki að vera í samskiptum við forráðamenn/nemendur á samskiptamiðlum.

Upplýsingar frá skólanum eru birtar á heimasíðu skólans, m.a. skóladagatal, skólanámskrá, starfsáætlun, starfsmannalisti og fleira. Upplýsingar um námsmarkmið, námsmat, heimanám, ástundun og fleira tengt námi hvers nemanda er birt á Mentor.

Hafa þarf í huga að enda þótt fyrrgreindar verklagsreglur séu mikilvægar og eigi almennt við þá þarf alltaf að vera nægur sveigjanleiki fyrir hendi til hægt sé að mæta ólíkum þörfum allra fjölskyldna, hvort sem það er tímabundið eða ekki. Um slík frávik má semja sérstaklega.

Hagnýtir punktar varðandi samskipti með tölvupósti

Hvenær á að nota tölvupóst?

  • Koma upplýsingum á framfæri
  • Leita upplýsinga
  • Hrósa starfsmanni/skóla fyrir það sem vel er gert
  • Gera athugasemdir um það sem þér finnst miður fara

Hvenær/hvernig á ekki að nota tölvupóst?

  • Ekki ræða viðkvæm, persónuleg mál í tölvupósti – hringja og panta viðtal
  • Þegar maður er reiður og illa upplagður
  • Tölvupóstur er ekki öruggur – Aðrir geta lesið póstinn
  • Póstur getur „óvart“ farið á annað/önnur netföng
  • Ekki er hægt að eyða bréfi sem hefur verið sent eða breyta því á nokkurn hátt
  • Þegar bréf hefur verið sent er það til, óvíst er að viðtakandi eyði því, heldur geymi það í tölvunni – jafnvel sendi það áfram til fleiri aðila eða prenti það út og sýni fleirum
  • Ekki er 100% öruggt að tölvupósturinn skili sér, frekar en sniglapóstur
  • Bréf send í tölvupósti hafa verið gögn í dómsmáli hér á landi

Hafið tölvupósta ávallt hnitmiðaða og skýra

  • Ekki senda löng skeyti. Hafðu textann hnitmiðaðan og skýran, þannig að skilaboðin komist klárlega til skila. Fáir gefa sér tíma til að lesa langan texta í tölvunni. Skeytin eiga að vera svo stutt að ekki þurfi að prenta þau út
  • Viðtakandi getur „lesið á milli línanna“ og túlkað póstinn á annan hátt en sendandi hafði ætlast til. Þess vegna þarf textinn að vera skýr og augljós. Varist hálfkveðnar vísur

Trúnaðarmál á ekki að ræða í tölvupósti

  • Tölvupóst á ekki að nota til að ræða viðkvæm mál
  • Aldrei senda trúnaðarmál í tölvupósti – þá er betra að hringja eða hittast augliti til auglitis

Viðhengi og auglýsingar

  • Tölvupóstur er einfalt, þægilegt og fljótlegt samskiptaform
  • Tölvupóstur er ákjósanlegur í almennum samskiptum við einstaka kennara eða skólann
  • Tölvupóstur er fínn til að koma skilaboðum til skólans
  • Sendið ekki auglýsingapóst eða ruslpóst á kennara
  • Notið viðhengi í hófi. Viðhengi eru stór skjöl sem taka langan tíma í að hlaðast inn í tölvu viðtakanda. Ekki á að senda viðhengi á einstaka kennara nema þeir vita af því áður

Sýnið alltaf kurteisi

  • Aldrei skrifa bréf í reiði, bíða þar til hún rennur
  • Ef þú ert í vafa um hvort þú eigir að senda bréfið, ekki senda það. Láttu einhvern eða einhverja lesa það yfir
  • Aldrei sýna ókurteisi eða dónaskap
  • Það sem þú lætur fara frá þér í tölvupósti lýtur sömu lögum og annað ritað mál. Varastu því að láta frá þér óhróður um fólk og stofnanir, jafnvel þó þér finnist einhver eiga það skilið