Fréttir

Páskabingó frestað!

Þar sem fjórða bylgja Covid virðist vera skollin á og það er að koma samkomubann þykir nemendaráðinu ekki við hæfi að halda Páskabingó. Bingóið frestast því um einhvern tíma. Við biðjumst velvirðingar á þessari frestun en í ljósi aðstæðna er frestun hið rétta í stöðunni.
Lesa meira

Úlfljótsvatn 8.bekkur

8.bekkur í Njarðvíkurskóla fór að Úlfljótsvatni í skólabúðir dagana 15.-17.mars. Það má í raun segja að loksins hafi þau komist þar sem þessi ferð var áætluð á síðasta skólaári en þurfti að fresta vegna sóttvarnartakmarkanna og Covid. Þessa þrjá daga og tvær nætur skemmtu allir sér konuglega við leik og störf. Það voru skipulagðar stundir á vegum staðarhaldara ásamt því að eiga frjálsan tíma inni á milli, síðan voru kvöldvökur sem nemendur sjálfir sáu um að skipuleggja bæði kvöldin. Í ferðinni var farið í fjallgöngu, útileiki, klifrað upp klifurturn, farið í bogfimi og margt annað. Hópurinn í heild stóð sig frábærlega og slógu í gegn hjá staðarhöldurum sem voru mjög ánægðir með hópinn. Í svona ferðum er gaman að fylgjast með því hvernig krakkarnir ná saman á annan hátt en í hefðbundnu skólastarfi líkt og má sjá í meðfylgjandi myndasafni.
Lesa meira

Rýmingaráætlun ef Almannavarnir gefa út viðvörun um hættuástand

Nú þegar jarðaskjálftar eru hér nær daglega og gosórói mælist þá skiptir miklu máli að við höfum verkferil til að fara eftir til að gera okkur öruggari að bregðast við. Í því sambandi þá höfum við uppfært og yfirfarið verklagsferla skólans þegar kemur að viðbrögðum við vá. Mikilvægt er að foreldrar/forráðamenn að kynni sér ykkur verklagsferlana, viðbrögð við vá og rýmingaráætlunina. Miklu máli skiptir að við séum öll örugg með hvernig við bregðumst við og hvert hlutverk okkar er.
Lesa meira

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Bergi í Hljómahöll þann 03.mars. Þar komu saman keppendur úr 7.bekk frá öllum grunnskólum Reykjanesbæjar og kepptu fyrir hönd síns skóla. Stóra upplestrarkeppnin heldur upp á 25 ára afmæli sitt núna í ár og má því segja að keppnin sé fyrir löngu orðin hluti af skólastarfi hvers skóla. Fyrir hönd Njarðvíkurskóla tóku þátt Kristín Björk Guðjónsdóttir og Viktor Garri Guðnason, varamaður þeirra var Ragna Talía Magnúsdóttir. Þau stóðu sig frábærlega og sýndu hversu mikið þau hafa lagt sig fram síðustu vikur og mánuði undir handleiðslu Margrétar Rósu íslenskukennara þeirra. Kristín Björk lenti í öðru sæti keppninnar í Hljómahöll, sem er frábær árangur þar sem keppnin var einstaklega jöfn og spennandi. Þá las Fjóla Osmani, einnig nemandi úr 7.bekk Njarðvíkurskóla, ljóð á sínu móðurmáli albönsku um Ísland og náttúru Íslands. Sigurvegari keppninnar var Guðný Kristín Þrastardóttur úr Myllubakkaskóla og í þriðja sæti var Rúna María Fjelsted úr Holtaskóla. Í meðfylgjandi myndasafni má sjá nokkrar myndir frá keppninni sjálfri.
Lesa meira

Breyting á skóladagatali

Gerðar hafa verið breytingar á skóladagatali þessa skólaárs. Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar: Árshátíð 25. mars, skertur nemendadagur færist til 3. maí, sem er skertur dagur á skóladagatali Skertur nemendadagur 25. mars færist til 7. júní og útinám/ferðir þann dag færast til 1. júní.
Lesa meira

Þemadagar í Njarðvíkurskóla, dagur 2

Hér í Njarðvíkurskóla héldu þemadagar áfram í dag. Þemað í ár var Heilbrigð sál í hraustum líkama. Líkt og má sjá á myndum í meðfylgjandi myndasafni þá var dagskráin fjölbreytt og vonandi skemmtileg fyrir alla nemendur. Það er alltaf gaman að brjóta upp hefðbundina kennslu og gera eitthvað sem er ekki gert dags daglega í skólanum.
Lesa meira

Niðurstöður úr viðhorfskönnun foreldra í 3., 6. og 9. bekk í Njarðvíkurskóla

Hérna eru niðurstöður úr viðhorfskönnun foreldra í 3., 6. og 9. bekk í Njarðvíkurskóla. Viðhorfskönnunin var nafnlaus og var send foreldrum í gegnum tölvupóst sem innihélt tengil þar sem óskað var eftir því að foreldrar svöruðu könnuninni. Hjá 3. og 6. bekk voru 19 spurningar og hjá 9. bekk 22 spurningar. Í niðurstöðum er búið að taka saman svörin í öllum þrem árgöngunum. Svörin í spurningu 21, 21 og 22 eru aðeins svör frá foreldrum í 9. bekk. Í niðurstöðum er einnig búið að draga saman svarmöguleikana, Mjög sammála og Frekar sammaála og einnig svarmöguleikana Mjög ósammála og frekar ósammála. Svarhlutfall var 29/32 í 3. bekk, 32/48 í 6. bekk og 25/37 í 9. bekk.
Lesa meira

Mikil ánægja með hafragrautinn í morgun

Í tilefni af þemadögum í Njarðvíkurskóla var hafragrautur í boði fyrir nemendur í morgun og verður aftur í boði í fyrramálið. Mikil ánægja var með hafragrautinn í morgun þar sem fjöldi nemenda mættu fyrr og borðuðu morgunmatinn í skólanum. Nemendum stendur til boða að fá hafragraut aftur á morgun frá 7:45-8:10.
Lesa meira

Íþróttatreyjudagur í Njarðvíkurskóla

Nemendaráð Njarðvíkurskóla ætlar að standa fyrir íþróttatreyjudegi á morgun, 25. febrúar. Er það gert í tilefni þemadaga sem eru í skólanum 25. og 26. febrúar. Yfirskrift þemadaga í Njarðvíkurskóla er Heilbrigð sál í hraustum líkama. Það væri gaman ef sem flestir myndu mæta í íþróttatreyju, er þá sama hvort um sé að ræða til dæmis fótboltatreyju eða körfuboltatreyju.
Lesa meira