15.03.2023
Vinakot var í fyrsta skipti með myndlistasýningu skólaárið 2021-2022 og voru tveir nemendur í hverjum árgangi í 1.-10. bekk sem tóku þátt. Efniviðurinn sem var notaður voru afgans spýtur úr smíðastofunni hjá Hörpu.
Verkefnið fékk mjög góðar undirtektir og ákváðum við þess vegna að hafa aðra sýningu núna á þessu skólaári og vinna hana með sömu áherslum og áður. Eina breytingin er að nemendur hafa núna meira val á efnivið að vinna með.
Þegar nemendur skólans koma á sýninguna sem er í stigaganginum á milli hæða þá er þar skál með málsháttum sem nemendur geta dregið og tekið með sér í kennslustofuna og unnið meira með þá.
Umsjónarmaður Vinakots og skólavina verkefnisins er Sjöfn Sóley Guðlaugsdóttir.
Lesa meira
09.03.2023
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Stapa í dag 9. mars. Þar komu saman keppendur úr 7. bekk frá öllum grunnskólum Reykjanesbæjar og kepptu fyrir hönd síns skóla. Keppnin er ávallt sett á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember og markmið hennar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði.
Fyrir hönd Njarðvíkurskóla tóku þátt Hafdís Inga Sveinsdóttir og Elís Einar Klemens Halldórsson, varamaður þeirra var Taiga Maria Baltrimai. Þau stóðu sig frábærlega og sýndu hversu mikið þau hafa lagt sig fram síðustu vikur og mánuði undir handleiðslu Jóhanns Gunnars Sigmarssonar og Auðar Ásgrímsdóttur íslenskukennara þeirra.
Hafdís Inga Sveinsdóttir sigraði keppnina í Stapa í ár, sem er frábær árangur þar sem keppnin var einstaklega jöfn og spennandi.
Allir lesarar stóðu sig með mikilli prýði og mjög erfitt var fyrir dómara að gera upp á milli þeirra. Það er því ljóst að nemendur í Reykjanesbæ hafa staðið sig afar vel í ræktunarhluta keppninnar í skólunum áður en til lokahátíðarinnar kom.
Njarðvíkurskóli óskar Hafdísi Ingu innilega til hamingju með frábæran árangur sem og Elísi Einari fyrir frábæran flutning.
Lesa meira
24.02.2023
Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur í Njarðvíkurskóla 22. febrúar 2023.
Yngra stigið (1.-5. bekkur) fór í þrautir í íþróttahúsinu og eldra stigið (6.-10. bekkur) tók þátt í ýmsum þrautum í stofunum á 3. hæð skólans.
Nemendur í 10. bekk settu upp draugahús sem allir nemendur gátu farið í gegnum.
Lesa meira
22.02.2023
Gylfi Guðmundsson fyrrverandi skólastjóri Njarðvíkurskóla er látinn. Við sem störfuðum með honum minnumst hans með hlýhug og virðingu. Hann treysti sínu starfsfólki í hvívetna og var starfsfólki skólans góður bakhjarl en jafnframt bar hann hag nemandans ávallt fyrir brjósti.
Gylfi var skólastjóri við Njarðvíkurskóla frá árinu 1983 til ársins 2004 og kom sem ferskur blær inn í skólasamfélag Njarðvíkurskóla og var mikill skólamaður. Hann var vakandi yfir nýjungum og mörgu því sem betur mætti fara í skólastarfinu og hafði mikinn metnað fyrir starfi skólans. Ýmsar nýjungar sáu dagsins ljós á þessum árum en Gylfi var áhugasamur um tækni og vildi að skólinn væri í fremstu röð hvað það varðar. Einnig lagði hann áherslu á og barðist fyrir því að kennarar skólans væru þátttakendur í tveggja ára starfsleikninámi á vegum Kennaraháskólans. Í kjölfar þessa náms leit fyrsta skólanámskrá skólans dagsins ljós.
Gylfi lagði grunn að mörgum verkefnum sem við byggjum enn á og stöndum fyrir í skólastarfinu og má þar nefna hátíðarkvöldverð 10. bekkjar sem fleiri skólar hér á svæðinu hafa tekið upp. Hann samdi textann við skólasöng Njarðvíkurskóla í tilefni af 60 ára afmæli skólans og fékk Rúnar Júlíusson til að semja lagið. Merki skólans sem og einkunnarorð skólans komu fram og voru unnin í hans stjórnendatíð.
Gylfi hafði góðar tengingar við Danmörku og eru það nokkrar ferðirnar sem hann stóð fyrir þangað. Hann fór með starfsmannahópinn til Danmerkur í náms- og kynnisferðir en einnig var farið nokkrum sinnum með elstu nemendur skólans í útskriftarferð til Danmerkur og nýttust þá tengslin sem Gylfi hafði vel í þær ferðir.
Njarðvíkurskóli stendur í þakkarskuld við Gylfa fyrir farsæla og gefandi samleið og vottar aðstandendum hans innilega samúð.
Ásgerður Þorgeirsdóttir,
skólastjóri Njarðvíkurskóla
Útför Gylfa Guðmundssonar fer fram frá Keflavíkurkirkju fimmtudaginn 23. febrúar kl. 11:00.
Lesa meira
21.02.2023
Í dag, 21. febrúar var Stóra upplestrarkeppnin haldin á sal Njarðvíkurskóla. Það er 7. bekkur sem tekur þátt í þessari keppni og voru það tíu nemendur sem tóku þátt en fyrr í febrúar var haldin bekkjarkeppni þar sem þessir tíu nemendur unnu sér rétt til þátttöku á sal.
Keppnin tókst einstaklega vel þar sem allir nemendur höfðu undirbúið sig vel, bæði í skólanum og líka heima fyrir. Jóhann Gunnar Sigmarsson íslenskukennari stýrði keppninni. Nemendur lásu hluta af sögunni Kennarinn sem hvarf og komu síðan aftur upp og lásu ljóð að eigin vali. Dómarar í keppninni í ár voru þau Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ásgerður Þorgeirsdóttir skólastjóri og Lára Guðmundsdóttir fyrrum skólastjóri í Njarðvíkurskóla. Sigurvegarar í keppninni fá keppnisrétt á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem fer fram í Bergi 9. mars.
Sigurvegarar í Njarðvíkurskóla voru þau Hafdís Inga Sveinsdóttir og Elís Einar Klemens Halldórsson. Taiga Maria Baltrimait var svo valin sem varamaður. Þau þrjú muna halda áfram að æfa og undirbúa sig fyrir lokakeppnina.
Aðrir nemendur sem tóku þátt í skólakeppninni voru:
Elísa Natnicha Róbertsdóttir
Eyjólfur Orri Helgason
Greta Björg Rafnsdóttir
Guðrún María Geirdal
Júlíana Modzelewska
Karen Ósk Lúthersdóttir
Vilberg Eldon Logason
Lesa meira
21.02.2023
Miðvikudaginn 22. febrúar er öskudagur og er það skertur nemendadagur. Skóla lýkur kl. 11:15 og geta nemendur borðað hádegismat áður en þeir fara heim. Frístundaheimili í skóla og Ösp er opin eftir að skóla lýkur til kl. 16:15.
Fimmtudaginn 23. febrúar er starfsdagur og föstudaginn 24. febrúar er vetrarleyfi í Njarðvíkurskóla. Allir nemendur eiga frí þessa tvo daga og frístundaheimili yngri nemenda og frístund í Ösp er lokað báða dagana.
Wednesday 22nd. of February is "Öskudagur" and it is a short student day. School ends at 11:15 and students can eat lunch before going home. The after-school center in school and Ösp are open until 16:15.
Thursday 23rd. of February is teacher's workday and Friday 24th. of February is a winter break at Njarðvíkurskóli. All students have a vacation these two days and the after-school program for younger students and in Ösp is closed both days.
Lesa meira
20.02.2023
Í Njarðvíkurskóla stýrir Sjöfn Sóley frímínútnaverkefni þar sem nemendur í 1.-6. bekk aðstoða hana við að stýra leikjum og afþreyingu fyrir nemendur skólans. Aðstaða skólavina er Vinakot sem er staðsett á leikvelli skólans við Ösp.
Þau í Vinakoti hafa haft til umráða þrjá hjólabíla sem nemendur nota í frímínútum í leik og til að hjálpa nemendum að auka hreyfigetu sína. Þar sem hjólabílarnir eru orðnir 30 ára gamlir og þarfnast yfirhalningar þá var ákveðið að leita til Ævars Ingólfssonar hjá Toyota í Reykjanesbæ sem gaf hjólabílana á sínum tíma um hvort hann væri tilbúinn að láta laga hjólabílana sem hann tók jákvætt í.
Ævar setti sig í samband við æskufélaga sinn, Helga Rafnsson hjá Rafholti en þeir voru báðir nemendur í Njarðvíkurskóla á sínum tíma og ákváðu þeir að gera vel við nemendur í Njarðvíkurskóla, þar sem þeir eiga svo hlýjar og góðar minningar frá skólanum.
Þeir ákváðu að gefa Njarðvíkurskóla sex nýja hjólabíla og erum við heldur betur þakklát fyrir þessa veglegu gjöf.
Það ríkti mikil gleði á meðal nemenda í frímínútum föstudaginn 17. febrúar þegar þeir afhentu hjólabílana sem eiga eftir að nýtast nemendum Njarðvíkurskóla vel næstu 30 árin.
Starfsfólk og nemendur Njarðvíkurskóla þakkar kærlega fyrir þessa frábæru gjöf.
Umsjónarmaður skólavina verkefnisins er Sjöfn Sóley Guðlaugsdóttir.
Lesa meira
20.02.2023
Nemendur í nemendaráði Njarðvíkurskóla hafa undanfarnar vikur verið að hanna skólapeysur og eru nú að fara með þær í sölu. Peysurnar eru merktar með nafni nemanda.
Peysan kostar 5.500 kr. með merkingu. Systkinaafsláttur er ef keyptar eru fleiri en ein peysa þannig að tvær peysur eru á 10.500 kr., þrjár peysur eru á 15.000 kr. og fjórar peysur á 19.500 kr.
Mátunardagar verða á sal skólans þriðjudaginn 21. febrúar kl. 13:20-14:00 og 15:30-16:30, miðvikudaginn 22. febrúar á sal kl. 14:00-16:00 en einnig geta nemendur á unglingastigi mátað peysur í hádegishléinu sínu í næstu viku.
Greiða þarf peysurnar við pöntun. Hægt er að millifæra á reikning skólans á staðnum en einnig er hægt að nota Aur eða greiða með peningum.
Fleiri mátunardagar verða auglýstir eftir vetrarleyfi.
Lesa meira
06.02.2023
Appelsínugul viðvörun vegna veðurs er í gildi á suðvesturlandi á morgun þriðjudaginn 7. febrúar. Það verður sunnan og suðvestan 20-28 m/s og talsverð eða mikil úrkoma.
Við biðjum forráðamenn að skoða eftirfarandi verklagsreglur grunnskóla við slæmu veðri:
Þegar veðurspár gefa til kynna að óveður sé í aðsigi á Suðurnesjum fylgjast Lögreglan og Almannavarnir gaumgæfilega með, hafa samstarf við skólana og gefa út viðvaranir til almennings, gerist þess þörf.
Mikilvægt er að forráðamenn sjálfir fylgist með veðri og veðurspám og hagi sér í samræmi við aðstæður hverju sinni.
Forráðamenn leggja sjálfir mat á hvort fylgja þarf barni í og úr skóla þótt engin tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti forráðamenn aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll.
Við slíkar aðstæður eru skólar og frístundaheimili opnir og þar er öruggt skjól fyrir börnin.
Lesa meira
30.01.2023
Föstudaginn 20. janúar var síðasti dagur Læsisviku skólans. Þema vikunnar var Þorrinn og voru fjölbreytt verkefni unnin þar sem áherslur voru á að efla enn frekar ánægju af lestri. Eitt að verkefnum vikunnar var að allir nemendur skólans lærðu lagið Þorraþræl (Nú er frost á fróni). 20. janúar var einstök samverustund í skólanum þar sem allir nemendur og starfsfólk skólans mynduðu keðju um allan skólann með því að taka höndum saman og syngja lagið.
Þáttastjórnendur Landans og myndatökumaður komu í heimsókn til okkar og tóku viðburðinn upp. Einnig tóku þeir upp árlegt þorrakappát hjá unglingastigi, tóku viðtöl við nokkra nemendur skólans og heimsóttu nokkar kennslustofur o.fl.
Þátturinn Landinn var sýndur á RÚV sunnudagskvöldið 29. Janúar.
Lesa meira