Fréttir

Gjöf til Njarðvíkurskóla

Í Njarðvíkurskóla stýrir Sjöfn Sóley frímínútnaverkefni þar sem nemendur í 1.-6. bekk aðstoða hana við að stýra leikjum og afþreyingu fyrir nemendur skólans. Aðstaða skólavina er Vinakot sem er staðsett á leikvelli skólans við Ösp. Þau í Vinakoti hafa haft til umráða þrjá hjólabíla sem nemendur nota í frímínútum í leik og til að hjálpa nemendum að auka hreyfigetu sína. Þar sem hjólabílarnir eru orðnir 30 ára gamlir og þarfnast yfirhalningar þá var ákveðið að leita til Ævars Ingólfssonar hjá Toyota í Reykjanesbæ sem gaf hjólabílana á sínum tíma um hvort hann væri tilbúinn að láta laga hjólabílana sem hann tók jákvætt í. Ævar setti sig í samband við æskufélaga sinn, Helga Rafnsson hjá Rafholti en þeir voru báðir nemendur í Njarðvíkurskóla á sínum tíma og ákváðu þeir að gera vel við nemendur í Njarðvíkurskóla, þar sem þeir eiga svo hlýjar og góðar minningar frá skólanum. Þeir ákváðu að gefa Njarðvíkurskóla sex nýja hjólabíla og erum við heldur betur þakklát fyrir þessa veglegu gjöf. Það ríkti mikil gleði á meðal nemenda í frímínútum föstudaginn 17. febrúar þegar þeir afhentu hjólabílana sem eiga eftir að nýtast nemendum Njarðvíkurskóla vel næstu 30 árin. Starfsfólk og nemendur Njarðvíkurskóla þakkar kærlega fyrir þessa frábæru gjöf. Umsjónarmaður skólavina verkefnisins er Sjöfn Sóley Guðlaugsdóttir.
Lesa meira

Skólapeysur Njarðvíkurskóla

Nemendur í nemendaráði Njarðvíkurskóla hafa undanfarnar vikur verið að hanna skólapeysur og eru nú að fara með þær í sölu. Peysurnar eru merktar með nafni nemanda. Peysan kostar 5.500 kr. með merkingu. Systkinaafsláttur er ef keyptar eru fleiri en ein peysa þannig að tvær peysur eru á 10.500 kr., þrjár peysur eru á 15.000 kr. og fjórar peysur á 19.500 kr. Mátunardagar verða á sal skólans þriðjudaginn 21. febrúar kl. 13:20-14:00 og 15:30-16:30, miðvikudaginn 22. febrúar á sal kl. 14:00-16:00 en einnig geta nemendur á unglingastigi mátað peysur í hádegishléinu sínu í næstu viku. Greiða þarf peysurnar við pöntun. Hægt er að millifæra á reikning skólans á staðnum en einnig er hægt að nota Aur eða greiða með peningum. Fleiri mátunardagar verða auglýstir eftir vetrarleyfi.
Lesa meira

Viðbragðsáætlun vegna veðurs - Bad weather - Zła pogoda

Appelsínugul viðvörun vegna veðurs er í gildi á suðvesturlandi á morgun þriðjudaginn 7. febrúar. Það verður sunnan og suðvestan 20-28 m/s og talsverð eða mikil úrkoma. Við biðjum forráðamenn að skoða eftirfarandi verklagsreglur grunnskóla við slæmu veðri: Þegar veðurspár gefa til kynna að óveður sé í aðsigi á Suðurnesjum fylgjast Lögreglan og Almannavarnir gaumgæfilega með, hafa samstarf við skólana og gefa út viðvaranir til almennings, gerist þess þörf. Mikilvægt er að forráðamenn sjálfir fylgist með veðri og veðurspám og hagi sér í samræmi við aðstæður hverju sinni. Forráðamenn leggja sjálfir mat á hvort fylgja þarf barni í og úr skóla þótt engin tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti forráðamenn aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Við slíkar aðstæður eru skólar og frístundaheimili opnir og þar er öruggt skjól fyrir börnin.
Lesa meira

Landinn á RÚV í Njarðvíkurskóla (myndband)

Föstudaginn 20. janúar var síðasti dagur Læsisviku skólans. Þema vikunnar var Þorrinn og voru fjölbreytt verkefni unnin þar sem áherslur voru á að efla enn frekar ánægju af lestri. Eitt að verkefnum vikunnar var að allir nemendur skólans lærðu lagið Þorraþræl (Nú er frost á fróni). 20. janúar var einstök samverustund í skólanum þar sem allir nemendur og starfsfólk skólans mynduðu keðju um allan skólann með því að taka höndum saman og syngja lagið. Þáttastjórnendur Landans og myndatökumaður komu í heimsókn til okkar og tóku viðburðinn upp. Einnig tóku þeir upp árlegt þorrakappát hjá unglingastigi, tóku viðtöl við nokkra nemendur skólans og heimsóttu nokkar kennslustofur o.fl. Þátturinn Landinn var sýndur á RÚV sunnudagskvöldið 29. Janúar.
Lesa meira

Orka og tækni í samstarfi við HS Veitur

Í Njarðvíkurskóla eru fjölbreyttir valáfangar fyrir nemendur í 8.-10. bekk. Eitt af valfögunum er valfagið Orka og tækni sem er unnið í samstarfi við HS Veitur hf. Nemendur kynnast fjölbreyttum störfum sem iðn- og tækninám hefur uppá að bjóða. Kynnast starfsemi veitufyrirtækja og fræðast um vatn, hitaveitu og rafmagn auk þess að öðlast þekkingu á umhverfismálum sem snúa að auðlindum. Námið er bæði bóklegt og verklegt og er að miklu leiti hjá HS Veitum. Kennarar eru iðn- og tæknimenntað starfsfólk hjá HS Veitum. Mikil ánægja er hjá nemendum með þessa valgrein og samstarfið við HS veitur er til fyrirmyndar. Valgrein sem þessi sýnir mikilvægi þess að auka vægi verklegrar kennslu hjá nemendum.
Lesa meira

Frábærir þemadagar í Njarðvíkurskóla

Forráðamenn og gestir nemenda í Njarðvíkurskóla fjölmenntu í dag á sýningu á afraksti nemenda að loknum þemadögum. Eins og gestir sáu þá hafa nemendur og starfsfólk ekki setið auðum höndum á þemadögunum og ótrúlega gaman að sjá afraksturinn og fjölbreytileika verkefna. Við erum svo lánsöm að forráðamenn og aðrir aðstandendur eru duglegir að mæta á viðburði í skólanum og var engin undantekning á því í þetta skipti. Kærar þakkir til allra sem komu og tóku þátt í deginum með okkur.
Lesa meira

Boðskort á opið hús - Heimsreisan - ferð um heiminn

Dagana 24. og 25. janúar eru þemadagar í Njarðvíkurskóla með yfirskriftina: Heimsreisan - ferð um heiminn. Á morgun miðvikudaginn 25. janúar verður opið hús fyrir forráðamenn og aðra gesti til að skoða afrakstur vinnu nemenda frá kl.12:40-13:20. Við hvetjum alla forráðamenn og gesti til að mæta á sýningu á afrakstri þemadagana og eiga góða stund saman með nemendum og starfsmönnum skólans.
Lesa meira

Samtalsdagur 1. febrúar

Miðvikudaginn 1. febrúar er samtalsdagur í Njarðvíkurskóla. Forráðamenn bóka viðtal við umsjónarkennara í gegnum Mentor og hér má finna myndband með leiðbeiningum um bókun viðtala: https://www.youtube.com/watch?v=mEFYnJhJAsM - Opnað verður fyrir bókanir 25. janúar kl. 00:01 og geta forráðamenn þá bókað sín viðtöl. Nemendur eiga að mæta með forráðamönnum sínum í viðtalið. Þeir forráðamenn sem eru með túlk í viðtalinu fá úthlutað tímum frá umsjónarkennurum og fá tölvupóst á næstu dögum með tímasetningunum. Óski forráðamenn eftir að hafa samtalið á TEAMS þá þarf að senda póst á umsjónarkennara og óska eftir slíku viðtali en mikilvægt er þó að nemandinn sé einnig í viðtalinu. Viðtöl fara fram í heimastofum nemenda. Þeir forráðamenn sem óska eftir viðtali við fag-, list- og verkgreinakennara, sem einnig eru til viðtals þennan dag, hafa samband við skrifstofustjóra skólans og bóka þau viðtöl. Hægt er að hringja í síma 420-3000 eða senda póst á njardvikurskoli@njardvikurskoli.is. Í viðtalinu verður farið yfir almennt gengi nemandans í skólanum og það námsmat sem lokið er á skólaárinu auk annars. Forráðamenn nemenda í 3., 6. og 9. bekk svara viðhorfskönnun eftir viðtalið og biðjum við þá forráðamenn um að staldra við og svara. Niðurstöður viðhorfskönnunar eru mikilvægur hluti í sjálfsmati skóla og notum við svörin til að gera gott skólastarf enn betra. Frístundaheimili skólans er opið á samtalsdaginn, bæði í skóla sem og Ösp frá kl. 8:15-16:15.
Lesa meira

Þemadagar í Njarðvíkurskóla 24. og 25. janúar

Dagana 24. og 25. janúar eru þemadagar í Njarðvíkurskóla með yfirskriftina: Heimsreisan - ferð um heiminn. Þemadagar eru uppbrotsdagar þar sem hefðbundin stundaskrá er látin víkja og nemendur vinna verkefni í tengslum við þemað. Skóladagur hefst hjá öllum nemendum kl. 8:15 í heimastofu og lýkur kl. 13:20/14:00 eða eins og stundaskrá árganga segir til um. Sérgreinar og val fellur niður þessa daga, þar með talið íþróttir og sund. Miðvikudaginn 25. janúar verður opið hús fyrir forráðamenn og aðra gesti til að skoða afrakstur vinnu nemenda frá kl.12:40-13:20. Vonumst við til að sjá ykkur sem flest.
Lesa meira

Landinn í heimsókn á þorranum

Í dag var síðasti dagur Læsisviku skólans. Þema vikunnar var þorrinn og voru fjölbreytt verkefni unnin þar sem áherslur voru á að efla enn frekar ánægju af lestri. Eitt að verkefnum vikunnar var að allir nemendur skólans lærðu lagið Þorraþræl (Nú er frost á fróni). Í morgun var einstök samverustund hér í skólanum þar sem allir nemendur og starfsfólk skólans mynduðu keðju um allan skólann með því að taka höndum saman og syngja lagið. Þáttastjórnendur Landans og myndatökumaður komu í heimsókn til okkar og tóku viðburðinn upp. Einnig tóku þeir upp árlegt þorrakappát hjá unglingastigi, tóku viðtöl við nokkra nemendur skólans og heimsóttu nokkar kennslustofur o.fl. Þátturinn verður sýndur á RÚV sunnudagskvöldið 29. janúar kl. 19:45 og hvetjum við alla til að horfa.
Lesa meira