Gylfi Guðmundsson, fyrrverandi skólastjóri Njarðvíkurskóla
Gylfi Guðmundsson fyrrverandi skólastjóri Njarðvíkurskóla er látinn. Við sem störfuðum með honum minnumst hans með hlýhug og virðingu. Hann treysti sínu starfsfólki í hvívetna og var starfsfólki skólans góður bakhjarl en jafnframt bar hann hag nemandans ávallt fyrir brjósti.
Gylfi var skólastjóri við Njarðvíkurskóla frá árinu 1983 til ársins 2004 og kom sem ferskur blær inn í skólasamfélag Njarðvíkurskóla og var mikill skólamaður. Hann var vakandi yfir nýjungum og mörgu því sem betur mætti fara í skólastarfinu og hafði mikinn metnað fyrir starfi skólans. Ýmsar nýjungar sáu dagsins ljós á þessum árum en Gylfi var áhugasamur um tækni og vildi að skólinn væri í fremstu röð hvað það varðar. Einnig lagði hann áherslu á og barðist fyrir því að kennarar skólans væru þátttakendur í tveggja ára starfsleikninámi á vegum Kennaraháskólans. Í kjölfar þessa náms leit fyrsta skólanámskrá skólans dagsins ljós.
Gylfi lagði grunn að mörgum verkefnum sem við byggjum enn á og stöndum fyrir í skólastarfinu og má þar nefna hátíðarkvöldverð 10. bekkjar sem fleiri skólar hér á svæðinu hafa tekið upp. Hann samdi textann við skólasöng Njarðvíkurskóla í tilefni af 60 ára afmæli skólans og fékk Rúnar Júlíusson til að semja lagið. Merki skólans sem og einkunnarorð skólans komu fram og voru unnin í hans stjórnendatíð.
Gylfi hafði góðar tengingar við Danmörku og eru það nokkrar ferðirnar sem hann stóð fyrir þangað. Hann fór með starfsmannahópinn til Danmerkur í náms- og kynnisferðir en einnig var farið nokkrum sinnum með elstu nemendur skólans í útskriftarferð til Danmerkur og nýttust þá tengslin sem Gylfi hafði vel í þær ferðir.
Njarðvíkurskóli stendur í þakkarskuld við Gylfa fyrir farsæla og gefandi samleið og vottar aðstandendum hans innilega samúð.
Ásgerður Þorgeirsdóttir,
skólastjóri Njarðvíkurskóla
Útför Gylfa Guðmundssonar fer fram frá Keflavíkurkirkju fimmtudaginn 23. febrúar kl. 11:00.