Karen Ósk og Hafdís Inga nemendur í 7. bekk
Á síðasta skólaári fór Njarðvíkurskóli af stað með nýtt og spennandi verkefni með nemendum í 5.-7. bekk. Verkefnið leggur áherslu á að nemendur fái að skoða og rannsaka efni innan síns áhugasviðs. Myndað hefur verið teymi sem sér um að halda utan um mikilvæga þætti sem koma að verkefnunum, til að styðja við nemendur og kennara við vinnu og framsetningu þeirra.
Nemendur hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga og eru þeir fullir eldmóði og útsjónarsemi. Það hefur verið einstaklega gaman að sjá hversu hugmyndaríkir og hjálpsamir þeir hafa verið í gegnum vinnuna. Áhugasvið nemendanna er breitt og voru hugmyndirnar mjög fjölbreyttar eins og sást á sýningu sem var sett upp á sal skólans miðvikudaginn 30. nóvember. Sýningin heppnaðist vel og komu áhugasamir samnemendur og forráðamenn að skoða á meðan nemendur í 5.-7. bekk stóðu stoltir hjá verkefnunum sínum, tilbúnir að svara spurningum.