Opnunarhátíð í Ösp
Föstudaginn 30. ágúst var opnunarhátíð í húsnæði sérdeildarinnar Ösp við Njarðvíkurskóla í tilefni af afhendingu viðbyggingar við sérdeildina. Kjartan Már bæjarstjóri, fulltrúar frá bæjarstjórn, fræðsluskrifstofu og umhverfissviði voru viðstaddir. Auk þess sem velgjörðarmenn, byggingaverktakar og starfsfólk skólans voru á staðnum.
Í maí var hafist handa við nýja viðbyggingu við sérdeildina Ösp við Njarðvíkurskóla. Viðbyggingin er um 282 m² sem mun breyta miklu í starfsemi deildarinnar. Einnig voru gerðar endurbætur að innan á núverandi byggingu sem er 336 m² að stærð – húsnæðið er því í heild 618 m².
Jóhann Friðriksson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, hélt stutta tölu og framhaldi talaði Ásgerður Þorgeirsdóttir skólastjóri Njarðvíkurskóla til gesta.
Í ræðu Ásgerðar sagði hún að gaman væri að fá að taka við þessari glæsilegu viðbyggingu sem ætti eftir að nýtast vel í því frábæra starfi sem unnið er í sérdeildinni.
Sérdeildin Ösp var stofnuð árið 2002 þegar skólaúrræði vantaði fyrir nemendur sem gátu ekki nýtt sér almenna bekkjarkennslu. Deildin er hugsuð fyrir nemendur í 1.-10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar sem þurfa á mjög sértæku námsúrræði að halda. Í Ösp eru skráðir í skólabyrjun 23 nemendur í 1.-10. bekk. Kristín Blöndal er deildarstjóri í Ösp og auk hennar starfa þrír sérkennari, þrír þroskaþjálfar , tveir leiðbeinendur, tveir félagsliðar og 12 stuðningsfulltrúar. Íþróttakennarar og list- og verkgreinakennarar Njarðvíkurskóla koma einnig að kennslu nemenda í Ösp.
Frístundaheimili er starfrækt eftir skóla frá 13:30 -16:00 þar sem Ólöf Rafnsdóttir er umsjónarmaður.
Nýkláruð viðbygging er fjórða stækkunin við sérdeildina, síðast var stækkað við hana árið 2012. Mikil þörf var orðin á að stækka húsnæðin og deildina vegna fjölgunar nemenda í bæjarfélaginu og koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn sem var mjög bágborin í eldra húsnæðinu.
Sparri byggingaverktakar sáu um verkið og sagði Ásgerður í sinni ræðu að Njarðvíkurskóli hefði ekki getað verið heppnari með verktaka. Framkvæmdir við húsið hófust í maí og reis það upp á miklum hraða og var mikill metnaður hjá öllum sem komu að byggingaframkvæmdum að þetta gengi hratt og fljótt fyrir sig svo starfsemin gæti byrjað sem næst skólasetningu. Ásgerður sagðist seint geta fullþakkað Sparramönnum og öðrum undirverktökum sem komu að verkinu hve hratt og vel þetta allt var gert og frágangur til fyrirmyndar.
Ásgerður sagði húsnæðið glæsilegt sem Reykjanesbær gæti verið stoltur af að hafa í bæjarfélaginu og mun styrkja starfið mikið með það að markmiði að geta komið enn betur til móts við nemendur með sérþarfir. Í Ösp er unnið mjög gott starf og er horft til starfsemi sérdeildarinnar frá öðrum sveitarfélögum.
Að lokum nefni Ásgerður hversu mikils virði fyrir sérdeildina sá stuðningur og velvild sem deildin hefur notið innan grenndarsamfélagsins, þar sem meðal annars hafa báðir Lionsklúbbarnir í Njarðvík, Kvenfélagið Njarðvík sem og Ásmundur Friðriksson hafa styrkt deildina mikið.