Skólaárið 2020-2021 hóf Njarðvíkurskóli vegferð sína í verkefninu Heilsueflandi grunnskóli. Hugmyndin um Heilsueflandi grunnskóla er byggð á Ottawa-sáttmála Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um heilsueflingu. Heilsueflandi grunnskóla er ætlað að styðja skóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu. Í því felst að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Verkefnið er einnig ætlað að styðja við grunnþátt menntunar heilbrigði og velferð sem er einn af grunnþáttum menntunar sem getið er um í Aðalnámskrá grunnskóla.
Áhersluþættir verkefnisins eru átta talsins; nemendur, heimili, nærsamfélag, mataræði, hreyfing, öryggi, lífsleikni og geðrækt.
Fyrsta árið er hugsað sem undirbúningsár en þá mun skólinn setja sér heildræna stefnu um áhersluþættina átta. Heilsustefnan verður byggð ofan á þá stefnu og gildi sem þegar eru til staðar í skólanum og fellur að mörgu leyti við þau markmið og áherslur sem lögð eru til grundvallar í verkefninu Heilsueflandi grunnskóli.