Karen Gígja, Elísa Guðrún og Viktoría Sól.
Glæsileg lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Reykjanesbæ fór fram í Hljómahöll þann 12. mars síðastliðinn. Njarðvíkurskóli átti þar fulltrúa sem stóðu sig með mikilli prýði og gerðu skólanum sínum sannarlega sóma.
Karen Gígja Guðnadóttir og Viktoría Sól Sigurðardóttir kepptu fyrir hönd skólans en Elísa Guðrún Guðnadóttir var varamaður þeirra.
Rósa Kristín Jónsdóttir nemandi í 8. bekk Njarðvíkurskóla og sigurvegari keppninnar á síðasta ári tók einnig þátt í dagskránni með því að lesa texta um skáld hátíðarinnar.
Stóra upplestrarkeppnin er árlegur viðburður sem hefur það að markmiði að efla áhuga nemenda á móðurmálinu og vekja athygli á mikilvægi vandaðs upplestrar og framburðar. Keppnin er ætluð nemendum í 7. bekk grunnskóla og hefur um árabil verið einn af hápunktum skólaársins.
Fulltrúar Njarðvíkurskóla stóðu sig vel og sýndu góða færni með upplestri sínum þar sem keppendur lásu bæði bundið mál og óbundið.