4. bekkur
Mánudaginn 16. maí var Litla upplestrarkeppnin haldin hátíðleg á sal Njarðvíkurskóla. Keppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur að vori. Þátttakendur eru nemendur í 4. bekk.
Litla upplestrarkeppnin hófst í Hafnarfirði haustið 2010 og byggir á markmiðum Stóru upplestrarkeppninnar sem haldin er árlega í 7. bekk. Meginmarkmið keppninnar er að nemendur flytji íslenskt mál sjálfum sér og öðrum til ánægju og að þeir hafi vandvirkni og virðingu að leiðarljósi við flutninginn. Keppnishugtakið felur eingöngu í sér það markmið að keppa við sjálfan sig, að verða betri í dag enn í gær. Nemendur hafa því æft undir handleiðslu umsjónarkennara sinna í vetur.
Forráðamönnum nemenda, nemendum í 3. bekk og fulltrúa frá Fræðsluskrifstofunn var boðið að koma á sal og fylgjast með. Nemendur í 4. bekk tóku þátt og lásu upp margskonar texta, bæði ljóð og sögur hvort sem það var sem einstaklingur eða hluti af hóplestri. Fyrir marga nemendur var þetta stórt skref að standa fyrir framan stóran hóp og lesa upp og stóðu því allir nemendur sig eins og hetjur.
Á milli upplestra voru flutt tvö tónlistaratriði, Lilja Björk lék á klarinett og Geirþrúður Bogadóttir lék undir á píanó og Freyja Kristín, Helena Rós og María Lilja voru með gítarleik. Einnig voru Þorgerður Tinna og Kristjana Ása fulltrúar skólans í Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk með upplestur fyrir nemendur, bæði texta og ljóð. Að lokum fengu nemendur afhent viðurkenningaskjöl fyrir þátttöku í keppninni.