Í dag var haldin uppskeruhátíð í tengslum við verkefnið Í takt við tímann og hvað svo? Þetta er lestrarverkefni sem var unnið í samstarfi Þorgríms Þráinssonar og Njarðvíkurskóla, þar sem aðalmarkmiðið var að reyna skapa ánægju af lestri meðal nemenda. Aðdragandinn að því að Njarðvíkurskóla fór í þetta verkefni var að í loka síðasta skólaárs, 2019-2020, sótti Njarðvíkurskóli um styrk til Reykjanesbæjar að lestrarverkefni. Í framhaldi af því var myndað teymi innan skólans sem í voru, Helena deildarstjóri, Jóhann Gunnar deildarstjóri, Ingunn Þormar úr námsveri skólans og Vilborg af bókasafni Njarðvíkurskóla. Fljótlega kom upp sú hugmynd að fá Þorgrím Þráinsson í samstarf með skólanum og má segja að það hafi reynst mikil gæfa fyrir skólann.
Þorgrímur heimsótti nemendur í 5.-10. bekk tvisvar sinnum yfir skólaárið þar sem hann ræddi um lestur, ánægju af lestri og lagði inn verkefni í skapandi skrifum sem kennarar skólans unnu síðan með áfram. Vegna sóttvarnarreglna var ekki unnt að gera allt sem stefnt var að í upphafi en eigi að síður var margt skemmtilegt gert. Meðal annars var Þorgrímur duglegur að senda okkur myndbönd, bæði af sér að lesa upp úr bókum ásamt því að hann fékk marga þekkta og skemmtilega einstaklinga úr þjóðfélaginu til að senda myndbönd til nemenda þar sem þau töluðu um lestur og mikilvægi hans fyrir þau. Þá unnu nemendur á yngsta stigi að því að myndskreyta bækur eftir Þorgrím og síðan voru sett upp veggspjöld fyrir utan allar stofur þar sem nemendur skrifuðu nöfn á bókum sem þau höfðu lesið og vildu mæla með fyrir samnemendur sína. Í framhaldi af því vann Vilborg á bókasafninu vinsældarlista sem munu síðan hanga uppi á bókasafninu þar sem nemendur geta fengið hugmyndir að bókum til að lesa.
Við í Njarðvíkurskóla erum Þorgrími innilega þakklát fyrir hans vinnu og munum koma til með að nýta okkur margt af því sem var gert í vetur til þess að vinna með nemendum næstu ár, með það að markmiði að auka ánægju af lestri. Þrátt fyrir að Covid og sóttvarnarreglur hafi sett okkur ýmsar skorður var ákveðið að halda uppskeruhátíð í lok vetrar. Þá sendu nemendur inn sögur, ljóð, hrósbréf og fleiri verkefni sem þau höfðu unnið að í tímum eftir heimsóknir Þorgríms. Í dómnefnd voru meðlimir teymisins í skólanum ásamt Þorgrími.
Ein af þeim ástæðum fyrir því að farið var í þetta verkefni var að síðustu ár hafði það sýnt sig í Skólapúlsinum, sem er könnun gerð á meðal nemenda í 6.-10. bekk, að ánægja meðal nemenda með lestur hefur farið minnkandi. Því var það ánægjulegt að sjá að í vetur sást það að við stefndum upp á við. Í stað þess að ánægjan fari minnkandi meðal nemenda þá jókst hún í vetur samkvæmt Skólapúlsinum og því má segja að það markmiðið sem var lagt upp með í upphafi gengið upp.
Þeir nemendur sem voru verðlaunaðir á uppskeruhátíðinni í dag voru:
Rannveig Guðmundsdóttir 10.bekk
Magnús Orri Lárusson 9.bekk
Nadía Líf Pálsdóttir 9.bekk
Sólrún Brynja Einarsdóttir 9.bekk
Unnur Ísold Krisinsdóttir 9.bekk
Kristín Arna Gunnarsdóttir 8.bekk
Þorgerður Tinna Kristinsdóttir 6.bekk
Sigríður Þóra Gabríelsdóttir 5.bekk
Anton Örn Garðarsson 4.bekk
Elin Mia Y Hardonk 4. bekk
Á meðfylgjandi myndum má sjá verðlaunahafa ásamt Þorgrími Þráinssyni.