Árshátíð Njarðvíkurskóla 2025

Glæsileg árshátíð Njarðvíkurskóla var haldin þann 4. apríl. Þema árshátíðarinnar í ár var „Árið okkar", sem var sama þema og hafði verið á þemadögum fyrr í vetur. Nemendur fluttu atriði sem tengdust þeirra fæðingarári og voru atriðin fjölbreytt í ár og höfðu nemendur og kennarar þeirra lagt á sig mikla vinnu við að undirbúa sín atriði.

Líkt og áður voru það nemendur skólans sem voru í öllum helstu lykilhlutverkum þannig að nemendur úr 9. og 10. bekk voru kynnar, hljóð- og ljósamenn sem og sviðsmenn og ber að hrósa þeim nemendum sem tóku það hlutverk að sér fyrir frábæra vinnu og samvinnu í ár.
Árshátíðin var haldin í íþróttahúsi skólans sem var búið að umbreyta í frábæran leik- og tónlistarsal. Að lokinni árshátíð var boðið upp á skúffuköku og drykki í boði foreldrafélags Njarðvíkurskóla í skólanum þar sem forráðamenn gátu skoðað afrakstur þemadaga frá því fyrr í vetur.

Foreldrar og gestir voru sammála um að árshátíðin hefði verið einstaklega vel heppnuð og endurspeglað vel þann góða anda sem ríkir í Njarðvíkurskóla.

Hér má sjá nokkrar myndir frá árshátíðinni og fleiri myndir munu koma síðar