Kveðja frá Njarðvíkurskóla
Mér er það afar ljúft að minnast Láru Maríu Ingimundardóttur en Lára hóf störf við Njarðvíkurskóla haustið 2017.
Kynni okkar af Láru eru þó lengri þar sem Lára gekk í Njarðvíkurskóla og var afar stolt af skólanum sínum alla tíð, þetta var hennar skóli. Þegar hún sótti eftir að starfa við skólann þá tókum við vel í þá beiðni og fundum henni starfsvettvang sem hentaði henni best. Hún var mjög þakklát að fá að starfa við skólann enda fannst henni hún feta í fótspor móður sinnar sem hafði starfað sem kennari hér við skólann á árum áðum. Lára setti mark sitt á starfið hér með sinni einlægni, jákvæðni og litríka karakter.
Lára var mjög sýnileg í okkar nærumhverfi og þegar við hittumst utan skólans heilsaði hún mér alltaf með „hæ boss“ og svo kom skemmtilegt glott í framhaldinu.
Hún var mikill félagsmaður UMFN og dyggur stuðningsmaður körfunnar hér í Njarðvík. Á leikdögum vorum við hér í skólanum minnt á leikinn, þá sérstaklega ef það var heimaleikur, því á þeim leikjum vann hún sem sjálfboðaliði. Hún stóð með sínum mönnum og studdi þá alla leið.
Láru var margt til lista lagt og hafði einstaklega gaman af því að syngja og var gaman þegar við í skólanum fengum boð frá henni á tónleikana Hljómlist fyrir alla, þegar hún söng með Jóni Jónssyni. Lára stóð sig líka vel í bocciakeppnum með Nesi og mætti hlaðin verðlaunagripum í skólann eftir þá sigra og stoltið skein úr andliti hennar. Lífið var svo skemmtilegt. Við vorum því afar döpur þegar hún lét okkur vita að nú væri hún komin með annað verkefni sem væri að vinna bug á krabbameininu sem hún greindist með og hún ætlaði að hafa sigur þar. Lára ætlaði ekki að láta það mein stöðva sig og mætti í vinnuna eins og heilsan leyfði og stundum var það meira af vilja en mætti, hún vildi standa sig.
Við getum mörg tekið Láru okkur til fyrirmyndar hvernig hún tókst á við lífið og þær áskoranir sem það hafði upp á að bjóða, en öll verkefni, bæði lítil og stór, leysti hún með bros á vör.
Við í Njarðvíkurskóla þökkum Láru einstaka samfylgd og sendum aðstandendum hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Ásgerður Þorgeirsdóttir,
skólastjóri Njarðvíkurskóla.