Í Njarðvíkurskóla starfar eineltisteymi sem vinnur að viðhaldi forvarna gegn einelti auk þess sem teymið er kallað til komi upp eineltismál. Í teyminu eru: Skólastjóri, námsráðgjafi, deildastjórar og tveir kennarar. Hafi forráðamenn eða aðrir grun um einelti er mikilvægt að þeir afhendi eftirfarandi eyðublað til skólastjórnenda - Tilkynning um grun á einelti. Skólastjórnandi fer yfir skilgreiningu á einelti með tilkynnanda, ræðir við hann hvort síendurtekið sé brotið á einstaklingnum og hvort sami einstaklingur/hópur sem á í neikvæðum samskiptum við þolanda - sjá ferli. Í framhaldi er metið hvert skal stefna:
1. Unnið með málið eftir Vinnuferli 1 - Grunur um einelti
2. Unnið með málið eftir Vinnuferli 2A - Samskiptavandamál
Ef staðfest er að um einelti sé að ræða eftir að hafa unnið með Vinnuferli 1 er unnið með málið sem eineltismál og farið eftir Vinnuferli 2B.
Starfsfólk Njarðvíkurskóla lýsir því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi verði liðið í skólanum. Leitað verður allra ráða til að fyrirbyggja einelti og ofbeldi og til að leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt. Njarðvíkurskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju.
Hvað er einelti?
Einelti er síendurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einum, sem á erfitt með að verjast. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis.
Hugsanlega er um einelti að ræða ef nemandinn:
- Er hræddur við að ganga einn í skólann eða heim.
- Vill ekki fara í skólann.
- Kvartar undan vanlíðan á morgnana.
- Hættir að sinna náminu, einkunnir lækka.
- Fer að koma heim með rifin föt og skemmdar námsbækur.
- Byrjar að stama, missir sjálfstraustið.
- Leikur sér ekki við önnur börn.
- Neitar að segja frá hvað amar að.
- Kemur heim með marbletti eða skrámur sem hann getur ekki útskýrt.
- Verður árásargjarn og erfiður viðureignar.
- Kemur heim í öllum hléum í skólanum.
- Vill ekki taka þátt í félagsstörfum í skólanum.
Fyrirbyggjandi aðgerðir:
- Mikilvægt er að börn séu alin upp við jákvæða athygli. Þau læri að setja sig í spor annarra, sýna umburðarlyndi og bera virðingu fyrir öðrum.
- Allir nemendur skulu fræddir um stefnu skólans um að einelti og ofbeldi leyfist ekki.
- Námsefni og samvinnuleikir séu valdir með tilliti til aldurs.
- Nemendur velji sig ekki í hópa án ábyrgðar fullorðins.
- Tryggt sé að gæsla/virkt eftirlit sé í frímínútum og á þeim stöðum þar sem nemendur dvelja utan kennslustunda.
- Tekið verði á samskiptavandamálum þegar þau koma upp.
- Starfsfólk skólans verði nemendum fyrirmynd í framkomu við þá og aðra.
Hér eru nokkrar vefsíður sem fjalla um einelti:
- Jerico
- Umboðsmaður barna - einelti
- Höldum saman gegn einelti og kynferðislegri áreitni