Forsíða > Top menu > Skólinn > Saga skólans

Um uppfræðslu barna í Njarðvík er að finna ritaða heimild úr visitasíufundargerð árið 1867. Börnin lærðu þá lestur og skrift, helmingur þeirra lærði biblíusögur. Nemendur voru 20 úr báðum hverfum, Ytri- og Innri-Njarðvík. Um reikningskennslu er ekki getið fyrr en árið 1882.

Í Innri-Njarðvík var hafist handa við að byggja skóla árið 1891. Skóli þessi var kallaður Akurskóli og var rifinn árið 1906. Í húsi þessu var einnig geymt bókasafn Lestrarfélags Njarðvíkinga. Skólinn var byggður upp að nýju í Njarðvík I, í Innri-Njarðvík og var þar kennt til haustsins 1910 en þá flyst skólinn í annað húsnæði í Njarðvík II.

Fyrsta barnaskólahúsið í Ytri-Njarðvík var stofa í Höskuldarkoti, sem í mörg ár var kölluð "Skólinn". Seinna flyst skólinn í annað húsnæði, gamalt pakkhús í Ytri-Njarðvík og var sá skóli kallaður svartiskóli. Var hann síðast notaður til kennslu skólaárið 1909-1910.

Árið 1911 tók til starfa nýbyggður skóli í Keflavík. Var sá skóli sameiginlegur skóli barna úr Keflavík og Njarðvík um nær þriggja áratuga skeið þangað til kennsla var hafin aftur í Innri-Njarðvík árið 1939 og í Ytri-Njarðvík árið 1942.

Árið 1939 var ákveðið að leigja eitt herbergi fyrir skólann í svonefndum "bragga" í Innri-Njarðvík. Seinna fær skólinn leigða stofu að Ljósvöllum í Innri-Njarðvík árin 1941-1944. Þetta voru síðustu árin sem kennt var í Innri-Njarðvík. Skólinn flyst alfarið út í Ytri-Njarðvík árið 1944.

Nú var farið að huga að byggingu skólahúsnæðis. Í fyrstu var ákveðið að byggja skóla í báðum hverfum en vegna hins mikla kostnaðar því samfara var horfið frá því ráði. Ákveðið var að byggja skóla í Ytri-Njarðvík þar sem íbúar voru fleiri og hefjast framkvæmdir við bygginguna vorið 1942.
Þar sem byggingin var ekki tilbúin haustið 1942 var leigð stofa fyrir skólann á Bjargi í Ytri-Njarðvík. Kennsla hefst í nýja skólanum í febrúar 1943 en vígsluhátíð skólans var haldin 19. desember 1943.

Nemendur úr báðum hverfum sóttu unglingaskóla í Ytri-Njarðvík frá árunum 1942-1943 og aftur frá 1946-1947. Skóli þessi var starfræktur sem kvöldskóli. Kennsla hófst aftur í unglingadeild haustið 1949 og var henni fram haldið næstu 3 ár. Allt frá árinu 1952 til 1960 sækja 13-15 ára unglingar úr Njarðvík Gagnfræðaskóla Keflavíkur. Frá haustinu 1960 hefur allt skyldunám farið fram í Njarðvík.

Íþróttakennsla fór fyrst fram í skólastofum en síðar í samkomuhúsinu Krossinum þangað til íþróttahúsið var tekið í notkun árið 1970.

Fjórum sinnum hefur verið byggt við skólann. Síðast var tekin í notkun glæsileg viðbygging haustið 1993.

Árið 1943 voru 53 nemendur í skólanum. Nú eru þeir u.þ.b. 500. Starfsmenn eru alls 57. Kennarar eru 32.

Stjórn skólans:
Sigurbjörn Ketilsson var skólastjóri 1942 - 1973. Bjarni Fertram Halldórsson var skólastjóri 1973 - 1983. Gylfi Guðmundsson var skólastjóri frá hausti árið 1983 - 2004. Lára Guðmundsdóttir er skólastjóri frá hausti árið 2004.

Sigríður Ingibjörnsdóttir var yfirkennari og síðar aðstoðarskólastjóri 1965 - 1996. Sigríður starfaði við Njarðvíkurskóla frá árinu 1947 til hausts árið 1996, alls í 49 ár. Lára Guðmundsdóttir var aðstoðarskólastjóri frá hausti árið 1996 - 2004. Ásgerður Þorgeirsdóttir er aðstoðarskólastjóri frá hausti árið 2004.

Heimild: Guðrún Jónsdóttir og Guðríður Helgadóttir sem útskrifuðust frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1983.
Þær skrifuðu lokaritgerð sem bar heitið "Skólahald í Njarðvíkum til ársins 1962."